Thursday, September 10, 2015

Prótein smákökur "to die for"

Svo virðist vera sem ég er rosa léleg í að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa hérna á þessa síðu. En hér er ég! Ekki alveg búin að yfirgefa ykkur. Sumarið hérna í Kanada er búið að vera rosalega gott, búin að kynnast skemmtilegu fólki og skoða aðeins bæina hér í kring og náttúru. Mér finnst rosalega gaman og fallegt að sjá að hérna eru árstíðir, annað en á Íslandi haha. Laufin eru rétt byrjuð að breyta um lit en í næsta mánuði verður haustið alveg komið.

Ég og vinkonur mínar heimsóttum bæinn Elora um daginn.

Hinsvegar þá langar mig að segja ykkur aðeins frá breytingunum sem ég er búin að gera í mataræðinu. Nú er ég búin að taka út sykur, hveiti og mjólkurvörur úr daglegu mataræði. Ég er þó ennþá með nammidag einu sinni í viku en hann mun líklegast breytast bráðum. Ég ákvað að taka þetta úr mataræði mínu bæði vegna þess að ég er með vefjagigt og mig langar að vera heilsuhraust. Sykur er algjört eitur í mínum líkama, hveiti og mjólkurvörur ekkert síðri. Eina sem ég veit um að inniheldur mjólkurprótein í minni daglegri notkun er próteinið sem ég nota, ég prufaði vegan prótein og það var bara svo hræðilega sætt að ég gat ekki borðað það! Maður verður bara að málamiðla :) Mér er búið að líða rosalega vel á þessu mataræði en þetta getur verið erfitt. Ég tók þetta í hænuskrefum í byrjun. Byrjaði á að taka út mjólkina í kaffinu og nota kókosolíu í staðinn, síðan tók ég út ostinn og notaði frekar Daya ost sem kom rosalega skemmtilega á óvart! Næst var það að taka út tortilla pönnukökurnar út og var ég svo rosalega heppin að ég fann tortilla pönnukökur sem eru búnar til úr brúnum hrísgrjónum. Síðan er það sykurinn. Ég hef alltaf verið með sæta tönn, má segja að þetta sé hálfgerð fjölskylduböl þar sem flestir í minni fjölskyldu eru mikið fyrir sætindi haha. Einhvern vegin þurfti ég að finna út hvað ég gæti fengið mér á daginn sem myndi fullnægja þessari sykurlöngun. Borða reglulega hjálpar, drekka nóg af vatni hjálpar... en samt koma þeir dagar þar sem seinni partinn er ég með öskrandi löngun í súkkulaði eða eitthvað sem inniheldur sykur. Ég lagðist í rannsóknar vinnu á internetinu að leita af sykurlausum uppskriftum sem voru líka mjólkur- og hveiti lausar. Rakst ég þá á þessa einföldu og góðu uppskrift af Prótein smákökum, svo kölluðum Protein Brookies þar sem einn helmingurinn er súkkulaðibitakaka og hinn helmingurinn er brownie smákaka. Þær eru búnar að slá í gegn hjá okkur systrum og þvílíkt hvað þær hjálpa til seinni partinn þegar mig langar í kaffisopa og eitthvað sætt með því. Í einni smáköku eru 7 gr protein og 184 kcal. Í upprunalegri uppskrift þá er notast við kókospálma sykur en ég breytti því yfir í Xylitol. Ég er núna búin að baka þessar smákökur 2x. Í fyrra skiptið bakaði ég "brookies" en í seinna skiptið bakaði ég bara brownie smákökurnar. Bæði virkar vel og er algjörlega hægt að ráða þessu hvernig hver og einn vill. Hér fyrir neðan ætla ég að deila gleðinni minni með ykkur.

Protein Brookies

Mynd: http://dailyburn.com

Innihald:

Súkkulaði bita smákökurnar:

1 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör - verður að vera fljótandi ekki þurrt
1/2 bolli vanillu prótein 
1/3 bolli Xylitol ( eða eitthvað annað sætuefni )
1 stórt egg
3 msk sykurlausir/mjólkurlausir súkkulaði dropar

Brownie smákökur

1 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör - verður að vera fljótandi ekki þurrt
1/2 bolli súkkulaði prótein
2 msk kakóduft
1/3 bolli Xylitol
1 stórt egg

Mynd: http://dailyburn.com

Aðferð:

1. Hitið ofnin í 180°C
2. Takið tvær skálar, í aðra skálina blandið saman súkkulaðibita kökudeiginu og í hina skálina brownie smákökunum. Ef að deigið er of þykkt, fer mjög eftir hnetu/möndlusmjörinu sem er notað, er hægt að bæta við smá vatni, ef að deigið er of þunnt er hægt að bæta við meira af próteini. 
3. Takið eina matskeið af hvoru deigi og rúllið í höndunum og parið saman hlið við hlið á bökunarplötu. 
4. Bakið í ofninum í 10-12 mínútur, látið kólna
5. Til þess að kökurnar verði fullkomnar þá er best að setja þær í ziplock poka og geyma í frystinum. 

Verði ykkur að góðu!

Alexandra Sharon



No comments:

Post a Comment