Monday, February 23, 2015

Bolludagsblogg! - viku seinna

Fékk kínverska fortune cookie 
Viku of seint, ég veit. En mig langar samt að segja frá bolludeginum sem við héldum hérna í Kanada fyrir kanadísku fjölskyldu systur minnar! Ástæðan fyrir því að ég sé svo sein í þessum skrifum er að alla síðustu viku er ég búin að vera fárveik. Matareitrun eða einhver hræðilegur vírus sem ég greip, við vitum ekki hvað þetta var, ég er allavega búin með minn skammt af detoxi á þessu ári!! Nóg um það ég er enn á lífi og heilbrigð, fyrsti dagurinn í ræktinni búinn í dag eftir þessa veikinda viku og ég er 10x sterkari! Hversu góð tilfinning það var að komast aftur í ræktina og hrista aðeins á sér rassinn.
     Síðasta Sunnudag ákváðum ég og systir mín að fagna bolludeginum. Við ætluðum sko að vera rosa myndarlegar og baka bollurnar kvöldinu áður svo við þyrftum ekki að stressa okkur í því á Sunnudeginum. Þar sem þetta var í fyrsta skiptið sem við báðar vorum að baka gerdeigsbollur vorum við ekki alveg með hlutina á hreinu í fyrstu. Við fundum einhverja súper auðvelda uppskrift á netinu frá Hússtjórnunarskólanum og hugsuðum að þetta yrði ekkert mál. Eina sem var í þessari uppskrift var hveiti, ger, vatn og MIKIÐ smjörlíki. Þegar ég segi MIKIÐ þá er ég að tala um að deigið var löðrandi í fitu. Eitthvað fannst okkur þetta skrítið en leyfðum við deiginu að taka sinn tíma í að lyfta sér. Svo var komið að því að móta bollurnar og setja þær inní ofn. Enn fannst okkur þetta eitthvað skrítið, deigið var eitthvað svo blautt og slepjulegt. Inní ofn settum við bollurnar og biðum í eftirvæntingum í 10 mínútur (eins og stóð í uppskriftinni) að þær kæmu út fagurgylltar og fullkomlega rúnaðar bollur. Ekki var það alveg. Útúr ofninum komu 15 kexkökur!! Þær höfðu ekki lyft sér og í staðinn voru þær flatar og ljótar. Ekki alveg það sem við vorum að sækjast eftir. Klukkan var orðin nálægt 9 um kvöldið hjá okkur og við í algjöru panikki að finna út hvernig við ættum að redda þessu. Við gátum ekki eyðilagt okkar fyrsta bollukaffi og við búnar að lofa fólki dýrindis rjómabollum! Á endanum ákváðum við að hringja í mömmu, klukkan þá orðin vel í kringum 3 um nóttina á Íslandi, og biðja hana um hennar uppskrift (sem við hefðum átt að gera í byrjun) og auðvitað reddaði mamma okkur! Hún hló bara, gróf upp uppskriftabókina sína og óskaði okkur góðs gengis. Þekkir ábyggilega dætur sínar sem vilja hafa allt fullkomið þegar kemur að svona hlutum.


Aðeins misheppnaðar greyin.
Aftur lögðum við í baksturinn og uppúr miðnætti komu bollurnar fullkomnar úr ofninum! Nú gátum við farið sáttar að sofa. Sunnudagurinn rann upp (Sunday Bunday eins og við köllum þennan dag núna) og við gátum farið að útbúa fyllingarnar og skreyta þessar fínu bollur. Nú er Sunnudagurinn okkar nammidagur þannig við misstum okkur aðeins í gleðinni. Fyllingarnar sem urðu fyrir valinu var karamellurjómi, jarðaberjarjómi, vanillubúðingur, sulta og auðvitað dökkt súkkulaði toppað á bollurnar.

Auðvitað snapchattar maður ferlið!

Nokkuð vel heppnaðar myndi ég nú segja!

Það má segja að þessar bollur slógu í gegn! Fólk át yfir sig eins og venjan er á bolludeginum og margir spurðu hvar það væri hægt að fá svona bollur. Kanski við erum bara komin með business hérna úti! ;) En héðan í frá verður mömmu uppskrift alltaf notuð. Mömmur vita best!

Gleðilegan Bolludag! :)

Alexandra Sharon

Wednesday, February 11, 2015

Fiskisúpa sem gleður bragðkirtlana

Svona lítur forritið út
Að versla í matinn getur verið mismikil skemmtun. Sérstaklega þegar systir mín dregur mig frammúr á Mánudagsmorgnum (já MÁNUDAGSmorgnum) til að fara að versla í matinn. En ég læt mig hafa það, verð nú að viðurkenna að Mánudagsmorgnar eru einn besti tíminn til að fara að versla í matinn, þ.e.a.s. uppá traffíkina í búðinni að gera og flestar vörur nýjar og ferskar. Við fórum síðasta Mánudagsmorgun að versla í matinn og greip ég mig í að kalla yfir verslunina til systur minnar á Íslensku "Voru það SEX kartöflur?", við það lítur eldri kona á mig með hneykslunarsvip og gengur í burtu. Þá áttaði ég mig á því að ég hafi rétt svo í þessu hrópað "KYNLÍF" yfir alla verslunina. Smá vandræðarlegt augnablik en við hlógum bara af þessu. Hinsvegar langar mig að segja ykkur frá þessu frábæra "appi" sem ég er með í símanum mínum. Þetta er innkaupalista app sem heitir Grocery gadget og er frítt inná App store (hlýtur að vera til á play store líka), það eru til fleiri svipuð öpp en mér fannst þetta líta út fyrir vera einfaldast. Þetta app er búið að létta líf mitt í stórinnkaupum. Já ég er ein af þeim sem er með fullt af öppum sem eru svo "sniðug" en nota þau svo aldrei. En þetta app flokkast ekki undir þau. 

Þegar við skráum niður listann heldur forritið hlutunum áfram og næst þegar við skrifum niður lista þá þarf ekki að skrifa niður allt aftur, heldur bara einfaldlega íta á einn plús. Síðan þegar við förum að versla þá vel ég takkann "shop" og merki svo við þann hlut sem ég er búin að setja í körfuna og í enda verslunarleiðangurins get ég valið "shopping done" og þá fara allir hlutirnir af listanum. Síðan eru líka valmöguleikar á að merkja hluti sem ekki eru til í þetta skiptið þá fara þeir sjálfkrafa á næsta innkaupalista, bara svona svo að ég gleymi þessu alveg pottþétt ekki!

Shopping done!

Sniðuga við þetta forrit líka er að ef einhver annar er með sama forrit þá er hægt að áframsenda innkaupalistann á þann einstakling. 

Nú má einhver versla í matinn fyrir mig!

Ég mæli klárlega með að þið skoðið þetta app ef þið eruð að reyna að taka ykkur á í að vera skipulögð og reyna að nýta vel tímann sem við eigum. Hef komist að því í gegnum tíðina að það eru bara 24 klukkutímar í sólarhring en ekki endalausir klukkutímar eins og ég reikna alltaf með. 

Nóg um matarinnkaupin! Mig langar að deila með ykkur unaðslegri fiskisúpu sem ég og systir mín elduðum í gærkvöldi. Eiginmaður systir minnar gaf þessari súpu fimm stjörnur og "restaurant quality" eins og hann orðaði það. Ég hef alltaf verið svaka mikill gikkur á að borða fisk, en um leið og fiskurinn er kominn í einhvernskonar rétt þá get ég borðað hann. Sannur Íslendingur, er það ekki? ehem... 

Ég fann þessa uppskrift einhvern tíman fyrir löngu á veraldarvefnum og heitir hún Brasilísk fiskisúpa. Vel bragðsterk þessi! Ef hún er aðeins of sterk þá er ekkert mál að milda hana með vatni. 
Ætla ég að deila þessari með ykkur, vonandi gleður þessi uppskrift ykkur!

Brasilísk fiskisúpa


Innihald:
700-900 gr fersk fiskiflök af hvítum fisk (uppskrift segir 1 1/2 - 2 pund)
3 hvítlauksgeirar, maukaðir
4 msk ferskur sítrónusafi eða límónusafi
Salt
Nýmalaður pipar
Ólífu olía
150 ml saxaður blaðlaukur
150 ml saxaður vorlaukur
1/2 rauð paprika, söxuð
1/2 gul paprika, sökuð
1 handfylli spínat
450 ml saxaðir tómatar
1 msk paprika duft
Örlítið af grófum rauðum chili kryddi
1 stórt búnt af ferskum kóríander
1 tsk hrásykur
1 stór dós kókosmjólk

 Aðferð:

1. Leggið fiskiflökin í skál, bætið við maukuðum hvítlauk og sítrónusafa, veltið uppúr svo fiskurinn er vel marineraður. Stráið vel yfir af salti og pipar. Geymið í kæli á meðan restin af súpunni er gerð.

2. Í stórum potti hitið 2 msk af ólífuolíu á miðlungshita. Bætið við blaðlauk og vorlauk og steikið í nokkrar mínútur þangað til hann er orðinn mjúkur. Bætið paprikunni, papriku dufti og rauðu chili kryddi við. Stráið veglega yfir með salti og pipar (minnsta kosti 1 tsk af salti). Eldið í nokkrar mínútur, eða þar til paprikan er orðin mjúk. Bætið síðan við söxuðum tómötum og spínati. Bíðið eftir suðu og eldið í 5 mínútur með engu loki. Bætið að lokum við ferskum kóríander.

3. Notið stóra skeið til að fjarlægja helminginn af grænmetinu (þið munið setja það strax aftur ofaní). Breiðið úr grænmetinu sem eftir er í pottinum þannig það hylji botninn. Næst takið þið fiskinn og leggið hann ofan á grænmetið í pottinum. Kryddið með salti og pipar. Setjið síðan grænmetið sem þið tókuð úr pottinum aftur í, ofaná fiskinn. Hellið kókosmjólk yfir og stráið 1 msk af hrásykri. 

4. Bíðið eftir suðu, lækkið hitann, setjið lok ofan á og látið sjóða í 15 mínútur. Smakkið og bragðbætið eftir þörfum.  

Fiskisúpan braðsterk og góð!

Verði ykkur að góðu! Og endilega þið sem eldið þessa súpu megið segja mér hvað ykkur finnst um hana, líka væri gaman að fá að sjá myndir frá ykkur! :)

Harkan SEX í dag ;)

Alexandra Sharon




Thursday, February 5, 2015

Dansað í eldhúsinu

Í gær prufuðum ég og systir mín nýjan rétt í hádeginu. Við gerðum krakkalasagne eftir Berglindi Sigmars. Má finna þennan rétt í Heilsuréttir fjölskyldunnar bók 2 á bls 122. Ástæðan fyrir því að þetta heitir krakkalasagne er afþví grænmetið er svo vel falið í uppskriftinni og þar sem ég get verið svo mikill krakki með grænmeti þá er þetta fullkomið fyrir mig! Við gerðum sósuna frá grunni, þar sem aðal innihaldið var grænmeti, og var útkoman hreint æðisleg! 

Hræra, hræra í sósupott!

Við fundum lasagne plötur sem gerðar eru úr brúnum hrísgrjónum, kom mér á óvart að það var nákvæmlega enginn munur á venjulegum lasagne plötum og þessum hrísgrjónaplötum! Ég vona að ég geti fundið þessar plötur á Íslandi líka. Ef þið vitið hvort það sé hægt að fá svona lasagne plötur á Íslandi þá megið þið endilega láta mig vita hvar ég get keypt þær!

Hrísgrjónapasta for the win!

Eftir þessa máltíð fundum við hvað okkur leið vel og fengum ekki þessa tilfinningu að við höfum borðað einhvern þungann mat. Fengum góða orku sem entist okkur allan daginn. Þessi réttur tók þó langan tíma að gera, heill Todmobile og Páll Óskar geisladiskur til að vera nákvæm. Ekki fannst mér það leiðinlegt, því tónlist og matseld saman er fullkomnun. En út úr þessari uppskrift fengum við heilar þrjár máltíðir fyrir þrjár manneskjur sem sparar okkur vinnu, tíma og pening næst! Ég elska að elda það mikið að ég eigi nóg fyrir að minnsta kosti tvær máltíðir í viðbót. Þá verður allt svo miklu auðveldara næst og ekki hata ég það að ég spari pening í leiðinni. Eins gott að eiga stórann frysti!

Vel stórt lasagne!

Þetta lasagne er klárlega komið í topp 10 sætið mitt yfir uppáhalds matinn minn!

Og þetta lýtur líka svona vel út á disk!

Mig langar líka að fá að troða inn hérna með skipulag á eldhúsi! Núna erum við að taka skipulagið í nefið ég og systir mín, og verð ég bara að segja að skipulag í eldhúsi er númer 1,2 og 3 ef maður vill halda geðheilsunni með allri þessari matseld! Við vorum að taka kryddinn í gegn og fengum við þessar fínu krydd dollur með seglum sem hengt er á vegginn. Ég veit að þetta fæst líka í Ikea og þetta eru ekkert nýja fréttir þessar krydd"hillur" en vá, þetta er fullkomið fyrir skipulagsfríkið! 

Við elskum kryddin!

Alexandra Sharon


Tuesday, February 3, 2015

Fyrsta tilraun

Séð út um svefnherbergisgluggann
Góða kvöldið internet "sörfarar"

Hér er ég komin með heiðarlega tilraun að stofna bloggsíðu! Þetta verður smá áskorun veit ég, en hver elskar ekki áskorun í byrjun nýtt árs. Þar sem ég er á nýjum stað, með nýjan lífsstíl, á nýju ári ákvað ég að hví ekki skella í eina svona fína bloggsíðu og toppa algjörlega þennan nýja lífsstíl!
 
Það gæti komið vitlaus fallbeyging eða stafsetningarvilla inná milli, ég vona að þið fyrirgefið mér það en ég geri mitt besta að halda mig við rétt íslenskt málfar, með örlítið af slettum hér og þar ;)
     Nú er ég búin að dvelja næstum heilan mánuð í útlandinu góða, nánar tiltekið í bænum Guelph í Kanada. Þessi bær er um það bil 40 mínútna keyrsla frá Toronto í Ontario fylkinu. Um 115.000 manns búa hér og er þetta svokallaður háskólabær. Lítill bær fyrir kanadamenn en fyrir mér ekki svo lítill, þetta er sirka 1/3 af öllu Íslandi! Hér elska menn hokký, allir eiga snjóblásara, drekka Tim hortons og keyra um á "van". En nóg um það. Ég spila ekki hokký, á ekki snjóblásara og drekk ekki Piss hortons.
Bestu grænmetisbuff sem ég hef smakkað!
     Ég og systir mín erum búnar að hafa nóg að gera síðan við komum. Ég þurfti að fá mitt eigið herbergi, auðvitað, og þá tóku við breytingar á heimilinu og þrifnaðar átök. Og þar sem ég og systir mín erum búnar að gera allsherjar hreingerningu í mataræðinu líka þá tekur það svolítinn tíma í að skipuleggja mataráætlanir fyrir vikuna og elda bæði hádegis- og kvöldmat. Við höfum verið að þræða í gegn matreiðslubækurnar Heilsuréttir fjölskyldunnar frá Berglindi Sigmars, bók númer 1 og 2. Ég bara verð að gefa þessum uppskriftabókum mína bestu einkunn! Vá, vá, vá hvað þessi matur smakkast vel! Allt sem við höfum eldað uppúr þessari bók er hrein snilld. Grænmetisréttir, kjúklingaréttir, pottréttir og margt fleira, þvílík gæði í þessum uppskriftum! (ég lofa ég er ekki á prósentu hjá Berglindi í að auglýsa þessar bækur) Það er hellingur eftir sem við eigum eftir að prófa í bókunum og get ég ekki beðið eftir að smakka hina réttina! So far höfum við borðað hreint 6 daga vikunnar og leyft okkur svindldag 7 dag, hvíldardaginn mikla. Ég viðurkenni að þetta tekur tíma, þetta tekur aga og þetta getur verið erfitt! En þetta er svo þess virði, hvernig mér líður í dag og hvernig mér leið fyrir sirka 2 mánuðum er allt annað. Ég er að glíma við vefjagigt og liðagigt, og ég verð bara að segja að mataræði skiptir mig 110% máli, ekki það að ég geti læknað þetta en haldið verkjunum í skefjum skiptir miklu máli.
   En þetta er þó ekki eina sem ég hef verið að gera hér, auðvitað kíkti ég í búðir! ÉG ELSKA WALMART. Já, ég er forfallin walmart verslari. Ég vildi að ég gæti verslað allt þarna og flutt það til Íslands, en ég passa mig nú á að fara ekki yfir línuna ;) Verðin hérna eru bara "too good to be true"! En geymum það þar til næst. Ég vil ekki þreyta ykkur of mikið. Þessi síða er í vinnslu og mun ég reyna að vera eins dugleg og ég get að skrifa hér inn og setja ýmislegt áhugavert inn.

Prinsinn á heimilinu hatar ekki knúsin

Lifðu í lukku en ekki í krukku!

Alexandra Sharon